_ _    _ _____  ___   __                       
 __      _(_) | _(_)___ / ( _ ) / /_   ___ ___  _ __ ___  
 \ \ /\ / / | |/ / | |_ \ / _ \| '_ \ / __/ _ \| '_ ` _ \ 
  \ V  V /| |   <| |___) | (_) | (_) | (_| (_) | | | | | |
   \_/\_/ |_|_|\_\_|____/ \___/ \___(_)___\___/|_| |_| |_|

Philip Noel-Baker

Philip Noel-Baker
Philip Noel-Baker árið 1942.
Eldsneytis- og orkumálaráðherra Bretlands
Í embætti
15. febrúar 1950 – 31. október 1951
ForsætisráðherraClement Attlee
ForveriHugh Gaitskell
EftirmaðurEnginn
Samveldismálaráðherra Bretlands
Í embætti
7. október 1947 – 28. febrúar 1950
ForsætisráðherraClement Attlee
ForveriAddison vísigreifi
EftirmaðurPatrick Gordon Walker
Persónulegar upplýsingar
Fæddur1. nóvember 1889
London, Bretlandi
Látinn8. október 1982 (92 ára) Westminster, Bretlandi
ÞjóðerniBreskur
StjórnmálaflokkurVerkamannaflokkurinn
TrúarbrögðKvekari
HáskóliHaverford-háskóli
King's College, Cambridge
AtvinnaStjórnmálamaður
Verðlaun Friðarverðlaun Nóbels (1959)

Philip John Noel-Baker (1. nóvember 1889 – 8. október 1982) var breskur stjórnmálamaður, ríkiserindreki, fræðimaður, áhugaíþróttamaður og baráttumaður fyrir kjarnorkuafvopnun. Hann bar breska liðsfánann og vann silfurorðu í 1.500 metra hlaupi í Sumarólympíuleikunum 1920 í Antwerpen. Noel-Baker vann friðarverðlaun Nóbels árið 1959. Hann er eina manneskjan sem hefur unnið bæði til Ólympíuverðlauna og Nóbelsverðlauna.

Noel-Baker sat á breska þinginu fyrir Verkamannaflokkinn frá 1929 til 1931 og frá 1936 til 1970. Á þeim tíma vann hann í ýmsum ráðuneytum og sat nokkrum sinnum í ríkisstjórn. Hann var sæmdur barónstign árið 1977.

Uppvöxtur og íþróttaferill

Philip Baker fæddist í Brondesbury Park í Lundúnum og var sá sjötti af sjö börnum kanadískættaða kvekarans Josephs Allen Baker og hinnar skosku Elizabeth Balmer Moscrip. Faðir hans hafði flutt til Englands árið 1876 til þess að starfa í framleiðsluiðnaði og hafði setið í borgarráði Lundúna frá 1895 til 1906 fyrir Framfaraflokkinn og á neðri deild breska þingsins fyrir Frjálslynda flokkinn í kjördæminu Austur-Finsbury frá 1905 til 1918.

Baker nam við Ackworth-skóla, Bootham-skóla og síðan í Bandaríkjunum við Haverford-háskóla í Pennsylvaníu, sem er rekinn af kvekurum. Hann sótti síðan framhaldsnám í Konungsháskólanum í Cambridge frá 1908 til 1912. Baker þótti afburðanemandi og var auk þess forseti rökræðufélags skólans árið 1912 og forseti íþróttaklúbbsins frá 1910 til 1912.

Baker keppti í Ólympíuleikunum sem hlaupari bæði fyrir og eftir fyrri heimsstyrjöldina. Hann keppti fyrir hönd Bretlands bæði í 800 metra og 1500 metra hlaupi á Sumarólympíuleikunum 1912 í Stokkhólmi. Hann komst í úrslit í 1500 metra hlaupinu en vann ekki til verðlauna. Á Sumarólympíuleikunum 1920 var Baker fyrirliði breska hlaupaliðsins og bar fána þess. Hann vann fyrsta 800 metra hlaupið en einbeitti sér síðan að 1500 metra hlaupinu og vann til silfurverðlauna. Baker var aftur fyrirliði á Sumarólympíuleikunum 1924 í París en keppti ekki sjálfur.

Í byrjun ferils síns einbeitti Baker sér að fræðastörfum. Hann var útnefndur varaskólastjóri Ruskin-háskóla í Oxford árið 1914 og var kjörinn fræðimaður við Konungsháskólann í Cambridge næsta ár. Í fyrri heimsstyrjöldinni skipulagði hann og stýrði sjálfboðasjúkradeild ásamt breska kvekarasöfnuðinum sem fylgdi hersveitunum í Frakklandi frá 1914 til 1915. Hann var undanþeginn herskyldu af samviskuástæðum en vann sem aðjútant með breskri sjúkradeild Rauða krossins á Ítalíu frá 1915 til 1918. Hann hlaut heiðursmerki frá Bretlandi, Frakklandi og Ítalíu fyrir frammistöðu sína.

Stjórnmálaferill

Eftir fyrri heimsstyrjöldina tók Noel-Baker þátt í stofnun Þjóðabandalagsins. Hann vann sem aðstoðarmaður Roberts Cecil lávarðar og síðan sem aðstoðarmaður Erics Drummond, fyrsta aðalritara bandalagsins. Noel-Baker varð prófessor í alþjóðasamskiptum við Lundúnaháskóla frá 1924 til 1929 og fyrirlesari við Yale-háskóla frá 1933 til 1934. Hann hóf stjórnmálaferil í Verkamannaflokknum árið 1924 þegar hann bauð sig án árangurs fram á breska þingið í kjördæminu Birmingham Handsworth. Noel-Baker náði kjöri á breska þingið árið 1929 í kjördæminu Coventry og vann sem einkaþingritari utanríkisráðherrans Arthurs Henderson.

Noel-Baker datt út af þingi árið 1931 en vann áfram sem aðstoðarmaður Hendersons á meðan Henderson stýrði Alþjóðlegu afvopnunarráðstefnunni í Genf á árunum 1932 til 1933. Hann bauð sig aftur fram á þing í Coventry-kjördæmi árið 1936 án árangurs en náði kjöri í aukakosningum í Derby í júlí sama ár. Þegar Derby kjördæmi var skipt í tvennt árið 1950 varð Noel-Baker þingmaður kjördæmisins Suður-Derby.

Noel-Baker gekk í framkvæmdanefnd Verkamannaflokksins árið 1937. Þann 21. júní 1938, í aðdraganda seinni heimsstyrjaldarinnar, flutti hann ræðu í neðri málstofu breska þingsins þar sem hann mótmælti því að gerðar yrðu loftárásir á þýskar borgir og sagði: „Eina leiðin til þess að koma í veg fyrir voðaverk úr lofti er að binda enda á lofthernað og leysa flugheri alfarið upp.“

Noel-Baker vann sem þingritari í herflutningaráðuneytinu í þjóðstjórn Bretlands á árum seinni heimsstyrjaldarinnar. Þegar Verkamannaflokkurinn myndaði meirihlutastjórn eftir kosningar árið 1945 varð Noel-Baker ráðherra utanríkismálefna en átti í stirðu sambandi við utanríkisráðherrann Ernest Bevin. Noel-Baker varð flugmálaráðherra bresku ríkisstjórnarinnar í október árið 1947.

Noel-Baker sá um að skipuleggja Sumarólympíuleikana 1948 í London. Hann varð eldsneytis- og orkumálaráðherra árið 1950. Á miðjum fimmta áratugnum var Noel-Baker í sendinefnd Bretlands í því sem varð síðar að Sameinuðu þjóðunum. Hann tók þátt í að semja drög að stofnsamningi Sameinuðu þjóðanna og aðrar meginreglur samtakanna. Noel-Baker vann sem formaður framkvæmdastjórnar Verkamannaflokksins frá 1946 til 1947 en datt út úr framkvæmdanefnd flokksins árið 1948.

Á sjötta áratugnum var Noel-Baker ötull andstæðingur róttækari arms Verkamannaflokksins og talaði fyrir tvíhliða kjarnorkuafvopnun frekar en einhliða afvopnun. Noel-Baker vann friðarverðlaun Nóbels árið 1959 fyrir störf sín. Árið 1979 stofnaði hann ásamt Fenner Brockway Alþjóðlegu afvopnunarherferðina og var meðformaður hennar þar til hann lést. Noel-Baker var virkur í afvopnunarhreyfingum fram á níunda áratuginn.

Noel-Baker lét af þingmennsku eftir þingkosningar árið 1970. Hann var aðlaður árið 1977 og hlaut barónstign þann 22. júlí sama ár. Noel-Baker var forseti Alþjóðasamtaka um íþróttavísindi frá 1960 til 1976.

Einkahagir

Í júní árið 1915 kvæntist Philip Baker Irene Noel, hjúkrunarfræðingi í East Grinstead. Hann tók þaðan af upp nafnið Noel-Baker frá árinu 1921. Eiginkona hans var vinkona Virginiu Woolf. Einkasonur þeirra, Francis Noel-Baker, varð einnig þingmaður fyrir Verkamannaflokkinn og sat um hríð á neðri deild þingsins ásamt föður sínum. Hjónaband þeirra Irene var ekki farsælt og frá árinu 1936 átti Noel-Baker í ástarsambandi við Megan Lloyd George, dóttur fyrrum forsætisráðherrans Davids Lloyd George. Megan sat einnig á þingi, fyrst fyrir Frjálslynda flokkinn og síðar fyrir Verkamannaflokkinn. Sambandi þeirra lauk þegar Irene lést árið 1956.

Eftir að Noel-Baker lést í Westminster árið 1982 var hann grafinn í Heyshott í Vestur-Sussex við hlið konu sinnar.

Tilvísanir

  1. „Philip Noel-Baker; The Nobel Peace Prize 1959“. Nobelprize.org. The Nobel Foundation. Sótt 21. október 2008.
  2. "Olympic Games trivia for pedants" Geymt 9 ágúst 2012 í Wayback Machine, Canberra Times, 2 August 2012.
  3. 3,0 3,1 3,2 3,3 3,4 3,5 David Howell, "Baker, Philip John Noel-, Baron Noel-Baker (1889–1982)", Oxford Dictionary of National Biography, Oxford University Press, 2004; online edn, May 2012; accessed 7 December 2014.
  4. 4,0 4,1 Philip Baker Geymt 17 apríl 2020 í Wayback Machine. sports-reference.com
  5. „Lord Philip Noel-Baker, Nobel Prize Winner“. London School of Economics. Afrit af upprunalegu geymt þann 7. desember 2008. Sótt 5. maí 2009.
  6. Noel-Baker, Philip (1925). The Geneva Protocol for the Pacific Settlement of International Disputes. London: P.S. King & Son Ltd.
  7. P.J. Noel-Baker comments on air warfare, ww2db.com; accessed 7 December 2014.
  8. „New Ministers at Palace“. Derby Daily Telegraph. 14. október 1947. Sótt 2. nóvember 2015 – gegnum British Newspaper Archive.
  9. „NOEL-BAKER DROPPED“. Gloucester Echo. 18. maí 1948. Sótt 2. nóvember 2015 – gegnum British Newspaper Archive.
  10. Nobel Committee information on Noel-Baker Geymt 26 maí 2013 í Wayback Machine, nobelprize.org; accessed 7 December 2014.
  11. Whittaker, David J. (1989). Fighter for peace: Philip Noel-Baker 1889–1982. York: Sessions. ISBN 1-85072-056-8.